Hnakkus: Svarthol heimskunnar

« Home | Að fá Stein inn um gluggann » | Ofurhundur og kanamella » | Handbolti » | Grænjaxlabræði » | Ársuppgjör » | Hreinlæti » | Hasar í háloftunum » | Hringsnúningur Stefáns » | Stingandi tvískinnungur að norðan » | Skáldlegt réttlæti » 

2. sep. 2008 

Svarthol heimskunnar

Á Barnalandi ríkir mikill ótti þessa dagana. Ótti við ragnarök!

Á stórskemmtilegum spjallþræði á Barnalandi er þingað um dýrustu og metnaðarfyllstu vísindatilraun sögunnar. Að vísu aðallega út frá miður skarpri og þunnri frétt um málið af Vísi.is. Í fréttinni er fjallað á afar stuttaralegan og villandi hátt um heimsendaótta nokkurra vitleysinga vegna ræsingar fyrirbæris sem ber nafnið "The Large Hadron Collider". Ekkert er minnst á mótrök þeirra sem að tilrauninni standa en þann hóp skipa meðal annars um 8000 eðlisfræðingar og þónokkur lönd. Ekkert er heldur minnst á að ríkjandi skoðun vísindaheimsins sé að tilraunin sé fyllilega örugg og að þeir sem mótmæla henni séu flón. Óttinn við hið óþekkta selur enda betur en langdregið röfl um vísindi sem enginn skilur hvort eð er.

Þinghaldið á Barnalandi hóf "Lúsifer" nokkur. Hún ber augljóslega meira traust til blaðamanna Vísis en vísindaheimsins því hún slær því föstu að við eigum nokkra daga eftir ólifaða. Hún kvíðir eðlilega dauðanum og finnst forvitnisfikt vísindanna ósanngjarnt í sinn garð og mannkyns.

Forviða barnlendingar vilja náttúrulega vita meira um yfirvofandi dauða sinn og umræðurnar fara því hratt og örugglega af stað. Ekki eru allir barnlendingar nógu duglegir að lesa sér til gagns á Vísi.is því spurningum um ástæður tortímingar okkar rignir inn. "Magzterinn" stekkur sem betur fer til og greinir lesendum frá því að til standi að kveikja á "hverfli" eftir nokkra daga og að talið sé að hann gæti myndað svarthol sem muni gleypa jörðina.

"Valkyrjan" bendir á að það væri alveg eftir mannkyninu að "eyðileggja heiminn sjálf" og Magzterinn tekur undir þessa greiningu Valkyrjunnar og bætir við að það væri nú "alveg típískt". Sjálfur hef ég ekki orðið var við að mannkynið hafi eytt sjálfu sér og jörðinni áður, en það má vel vera að ég hafi ekki verið að fylgjast með og að þetta sé mjög dæmigerð hegðun. Þær stöllur komast svo sameiginlega að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að það eina sem sé hægt að gera í stöðunni sé að krossleggja fingur. Því ekki einu sinni svarthol bíta á krosslögðum fingrum.

"Bíba" kemur sterk til leiks:

"Úff, og ætla þeir bara að taka þann séns sí svona?
Hver er tilgangurinn með þessu? Veit það einhver? Hvað er það frábærasta sem gæti gerst í þessu "verkefni"?? :/"

"Séns sí sona" kallar hún Bíba það þegar átta þúsund eðlisfræðingar taka höndum saman, reikna eitthvað út í tuttugu og eitthvað ár og spandera hundruðum milljarða í rannsóknir. Gott og vel. Öll höfum við misjafna standarda. Skiljanlega vill Bíba fá útskýringar á áhættusækni fiktsjúku vísindamannanna og hvar er betra að fræðast um hvað færustu vísindamönnum heims gengur til en akkúrat á Barnalandi.

"Charmed" hefur því næst upp raustina og greinir veröldinni frá sinni vel ígrunduðu og upplýstu skoðun á tilrauninni. Henni finnst "fáránlegt að ætla að kveikja á þessum hverfli og vita í rauninni ekkert hvaða afleiðingar það hefur". Eins og Lúsifer finnst henni súrt að kyngja því að hennar stórbrotna tilvera gæti að engu orðið vegna ónauðsynlegrar tilraunar (sem að vísu gæti útskýrt tilurð alheimsins og ollið byltingu í skilningi mannkyns á náttúrulögmálunum). Ég verð að taka undir með Charmed hérna. Hvað höfum við með þekkingu, framfarir og ævintýri að gera þegar við höfum Charmed!

"Tuborg" sýnir af sér kurteisi sem aðrir barnlendingar mættu vel taka til fyrirmyndar og biðst afsökunar á heimsku sinni áður en hún spyr viðstadda hvað "Hvirfill" (sic) sé. Með þeim orðum lýkur þáttöku Tuborg að mestu, án mikilla áhrifa á umræðuna til eða frá.

Charmed viðurkennir á þessum tímapunkti í umræðunni að hún "skilji ekki tilganginn með þessarri rannsókn". Þessi yfirlýsing Charmed kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti þar sem Barnlendingar höfðu fram að þessu stólað verulega á hennar innsæi inn í heim framsækinnar eðlisfræði.

Valkyrjunni finnst kaldhæðnislegt að leit að svörum við uppruna heimsins muni mögulega verða sama heimi að aldurtila. Magzterinn tekur undir þessa athugasemd og finnst skrýtið að þetta sé leyft þegar margir vísindamenn telji þetta ógna öryggi manna eða jafnvel mannkyns alls. Undir þetta tekur "Honey Bee".

Honey Bee varpar svo nýjum vinkli á umræðuna og veltir upp spurningunni um "hvernig geti orðið til bara allt í einu svarthol og allt horfið eins og smellt sé fingri".

Magzterinn svarar með link á grein um svarthol á vísindavefnum. Væntanlega skrifuð af traustverðari vísindamönnum en þessum siðblindu galgopum sem halda til inni í einhverju fjalli í Sviss.

"Líla" hughreystir Honey Bee með því að benda á að líkast til væru "moggin og fréttabalið"(sic) búin að skrifa um þetta "ef eitthvað vit væri í þessu". Reyndar hafa allir fjölmiðlar fjallað nokkuð ítarlega um þessa tilraun nú þegar en líkast til lesa barnlendingar ekki margar fréttir um flóknar eðlisfræðitilraunir nema orðinu "ragnarök" sé skellt í fyrirsögnina.

Honey Bee veltir svo reyndar upp áhugaverðri spurningu sem vill svo til að ég get svarað fyrir hana. Hún spyr "hvar allir miðlarnir séu?". Svarið við þeirri spurningu er einfalt. Þeir eru uppteknir við að ræða við hana Sigríði/Guðrúnu, látna ömmu þína - frænku - eða ekki frænku, um draslið í geymslunni þinni, fyrir 5000 kall á tímann.

Þinghaldið fer skyndilega að snúast um hver gefi eiginlega leyfi fyrir óábyrgum fíflagangi eins og þessarri tilraun. "Twighz" sótbölvar "nördunum" sem standa fyrir þessu og lýsir því yfir að andstætt þeim gæti henni ekki verið meira sama um hvernig heimurinn varð til. Charmed leiðir að því líkum að nördarnir sjálfir samþykki þetta og að hér sé komið að einhvers konar "hefnd nördanna". Þið vitið...eins og í bíómyndinni þarna. Líla spyr hvort það eigi að leyfa þeim að gera þetta og spyr líka "af hverju ættu einhverjir vísindamenn að vera að hógna (sic) heiminum". Hún bara skilur það ekki. Sem er skrýtið því að hún virkar á mig eins og manneskja sem skilur flest annað.

"Asco" gengur til pontu og krefst svara:

"hver samþykkir svona og borgar 600 milljarða til að búa til tæki sem (okkur hérna virðist) allavega vera tilgangslaust og gæti "í versta falli" eytt heiminum.

Garg !"

Góð spurning! Hver samþykkir 600 milljarða vísindatilraun sem BARNLENDINGUM finnst vera tilgangslaus???! Kjarnorkurannsóknasamtök Evrópu og þau tuttugu lönd sem eiga aðild að samtökunum hefðu átt að kanna jarðveginn AAAÐEINS betur áður en peningunum var ausið í verkefni sem nýtur svona lítils fylgis á spjallvef fyrir mæður með of mikinn frítíma. Það er ekki nóg með að þetta vísindahyski viti ekkert um vísindi...þetta kann ekkert með peninga að fara heldur!

"Tipzy" leggur kalt mat á dæmið og bregður upp samanburði við annað vísindaverkefni:

"Finnst þetta bara ein versta hugmynd mannkynsins síðan atom sprengjan var fundin upp."

Japanir væru örugglega sammála Tipzy. Hún ætti að skreppa þangað og segja þeim af hverju öreindahraðall sem er byggður til að svara spurningum og auka framfarir í vísindum er verri en risastór sprengja sem var hönnuð í þeim tilgangi einum að flambera forfeður þeirra. Það yrðu örugglega lærdómsríkar samræður fyrir alla viðstadda.

"Addags" sem virðist vera örlagatrúar róar mannskapinn og bendir á að við ráðum ekki eigin örlögum. Að hvert okkar geti dáið hvenær sem er af völdum bíla og hárblásara.

"Við vitum aldrei hvenær okkar dagur kemur, kannski dey ég á morgun í bilslysi á Kringlumýrarbraut. Eða kannski eftir tvo daga dettur blásarinn minn ofan í baðkerið meðan ég ligg í því. Eða eða eða..."

Ef þú lest þetta á næstu tveimur dögum Addags....hættu að blása á þér hárið í baði! Ef þú lest þetta ekki á næstu tveimur dögum....þá skal ég íhuga þetta með örlögin. Díll?

Charmed tekur undir örlagaþvaðrið en lýsir enn og aftur frati á þetta "asnalega og tilgangslausa verkefni". "Eini tilgangur þess að að fróa fróðleiksfíkn örfára hræðna sem eru að fara yfir um af hugsunum "hvað er alheimurinn og bla bla" "- Segir Charmed skjálfandi af bræði yfir því að ekki séu allir jafn hógværir í þekkingarleit sinni og hún sjálf.

Lúsifer sem hóf umræðuna mætir því næst aftur á svæðið, nú orðin örvingluð af ótta:

"en ef það er hægt að komast hjá því!!! ég vil ekkert deyja!! ég er ekki tilbúin í að deyja!! hver er með mér í að fara uppí flugvél og fara þangað og stoppa þetta madness!!!"

Það eina sem stendur á milli Lúsifer og endaloka 600 milljarða fjölþjóðlegs verkefnis virðist vera ein flugferð. Ætli meiri líkur séu á að Lúsifer hverfi inn í manngert svarthol þann 10. september eða farist í flugvél á leiðinni til Sviss? Ég er enginn tölfræðingur en ég myndi mæla með að leyfa vísindunum að hafa sinn gang.

Umræðurnar leysast svo upp í gerð áætlana fyrir síðustu daga tilverunnar. Nammiát og vísakortaþjark virðist ofarlega á lista Barnlendinga yfir hluti sem þær vilja áorka áður en þær deyja.

Barnlendingar eru reyndar ekki einir um að óttast vísindin. Ekki ómerkari menn en Magnús Þór Hafsteinsson fyrrverandi þingmaður er t.d. sammála þeim um að Guði einum sé ætla að vita eitthvað um heiminn.

Reyndar hefur þessi manngerð alltaf verið til. Takmörkuð í getu sinni til að hugsa út fyrir hellinn og heiftúðug út í þá sem það geta. Fólk sem vill grilla nornir á flatri jörð. Það skondna er að nú til dags lýsir þetta fólk frati á vísindin með aðstoð rafmagns, tölvu og internets.

Það er nöturlegt að lesa um þessa vísindamenn sem ætla sér að eyða jörðinni með jafn öflugum/áberandi/kuldalegum hætti og raun ber vitni. Finnst ábyrgðarhluti að klúðra jarðlífinu svo afdráttarlaust, en það verður sérstök tilfinning þegar þetta gerist. Vona bara að það hafi verið stingandi þörf á þessu heilt yfir.

Þetta er einhver besta bloggfærsla ever.

Þetta er besti Hnakkus ever!
Takk!

Þú verður nú að láta Charmed njóta sannmælis, í lok umræðunnar kemur hún með þetta innlegg eftir að hafa lagst í umtalsverða rannsóknarvinnu:

Ég kannaði þetta nú aðeins betur. Þetta er eiginlega bara einn aðilli með smá fylgifiska sem er að tuða þetta. Hann lét svona líka þegar og fór í mál árið 2000 til að stöðva hraðal sem er búin að vera í gangi síðan 2001 og ekkert komið fyrir enþá.
Miðaðvið það sem ég hef lesið spryngur þessi rannsóknar stofa í versta falli, virki hraðallinn ekki.


Eftir þetta virðist ró hafa færst yfir mannskapinn og helvítis nördanir sem ætluðu að stúta barnalandsmæðrunum með þekkingarleit víkja fyrir öðrum merkilegri viðfangsefnum.

Hahaha!

Ó snilldin! :)

Ég veit ekki hvort er fyndnara - upprunalega bloggfærslan eða fyrsta athugasemdin, þar sem einhver þykist vera stebbifr og setur inn færslu sem gúbbífiskur myndi skammast sín fyrir (ég veit að stebbifr er nú kannski ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni, en svona mikill þörungur er hann varla).

Óborganlegt.

Óborganleg færsla! Ég veinaði af hlátri yfir þessari vitleysu.

Það er vont að vera heimskur og síðan hellir vísir yfir mann orðum eins og svarthol, hvirfill, vísindamenn, heimsendir. Þegar maður sá áður aðeins regnboga og kærleiksbirni. Hvernig á fólk að stoppa hluti sem það þekkir ekki og hefur ekki skilning á.
Ég efast ekki um að öllum barnalandskellingunum líði svolítið eins og köttum í poka.

Og þar með fann Hnakkus upp nýja vísindagrein - félagsfræði vefsamfélaga.

Verst er þó að ég sé ekki fram á að nokkur maður geti starfað við rannsóknir á þessu sviði til lengri tíma og haldið um leið geðheilsunni.

ég skal sko segja þér það að þetta ein fyndnasta umræða sem ég hef lesið lengi!

ég er ennþá örvingluð af hræðslu og ég bíð þess að dauðadagi minn muni koma! það mun enginn sannfæra mig um að við munum ekki deyja fyrr en 11.september! og hvað gerist þá? þá mun pottþétt einhver 17 ára pjakkur á evo keyra á mig! það er svo týpískt að eitthvað svoleiðis gerist!!

En ég skal sko segja þér það að þetta er ekkert djók!! vittu til VITTU TIL !!!

Vertu sterk Lúsifer. Þetta verður allt í lagi.

Hinsvegar...ef þú vilt alls alls ekki taka sénsinn á að farasta þann tíunda september þá geturðu alltaf bara skroppið í bað með "addags" þann níunda.

p.s. Sá sem skrifaði StebbaFr kommentið gerði mig glaðan í buxunum.

Hahahahahhaha snillingur,..... en hey, þú sleppir nú ýmislegu.... ég sagði t.d. að ég væri nú ekki hrædd um að þessi bölspá myndi rætast og ef að svo færi að heimurinn færist þann 10. sept og ég með þá bara "so be it" (og ég leiðrétti mig um leið og ég póstaði inn þræðinum þar sem ég skrifaði hverfill í stað hraðall)
Give me some credit meeennn ;)(sp. svo að taka er.is ekki of alvarlega ;P)

ég vil ekki heldur farast fyrr!!! ég er að segja það við erum DOOMED!!! Þið sitjið núna og hlæjið að mér litlu stelpunni!! En bíðið bara!!

*****

hehemm...

talandi um að hafa of mikinn tíma;)

ég hef alla veganna afsökun;)

Við á þessu heimili hlógum dátt að þessari færslu, við munum eyða næstu dögum óhrædd.

Við bendum ykkur á þetta tónlistarmyndband frá starfsmönnum hraðalsins ykkur til skemmtunar og tímaeyðslu fram að örlagadeginum.

Það er gott að hnakkus hafi ekki jafn mikinn tíma á höndum sér til að sitja aðgerðarlaus og barnalandsmæðurnar. Hann er augljóslega störfum hlaðinn enda er þetta örstutt færsla hjá honum. Hvernig ætli hann hafi rekist á þessa umræðu á netinu?? Ég meina, varla fer hann inn á Barnaland reglulega til að lesa umræður þar? Nei, það getur ekki verið - hann hefur í fyrsta lagi ekki tíma til þess eins og áður sagði en svo myndi hann heldur aldrei leggjast svo lágt að lesa að staðaldri samskipti þessara aumingja heilalitlu mæðra sem eru honum svo sannarlega ekki samboðnar vitsmunalega séð - hahaha, það er nú bara hlægilegt að hugsa til þessara jafnað saman! Hnakkus, sem er svo heppinn að vera meðvitaður um hversu vel upplýstur og vel gefinn hann er annars vegar, barnalandsmæðralufsurnar hinsvegar sem geta ekki annað en hugsað í mjög litla hringi sem ná vart lengra en kringum nafla þeirra sjálfra!
Já, hahaha, mér verður hreinlega heitt í hjartalokunum við tilhugsunina.

hvaða rétt efur þú til að kalla allar barnalandskonur heilalitlar mæður? get over yourself

færustu vísindamenn í heimi sögðu að jörðin væri flöt og margt fleira mætti telja upp sem þeir góðu menn hafa nú sagt í gegnum tíðina.
en þetta blogg er nú sennilega það skemmtilegasta ever. þakkir fyrir það.

Takk fyrir skemmtilega lýsingu á mér, hló mikið, verst að kaldhæðni skilst ekki í skrifuðu máli "hefnd nördanna"

Vel skrifað blogg ;)

Úff...Þetta er fyndið.

Náunginn sem kærði þetta leggur víst í vana sinn að leggja fram kæru alltaf þegar stórar vélar á rannsóknarstofum eru settar í gang.

CERN rappið fékk mig til að vagga dálítið.

Jahá. Versta finnst mér þegar þessar barnalandspennar koma hingað og skjóta á Hnakkus til baka, því skotin er bara sorgleg. "Þú hefur bara alltof mikinn tíma til að gera ekki neitt, alveg eins og við, og því geturðu ekkert sagt"

Nema hvað að munurinn á Hnakkus og þessum pennum er að heilinn hans er ekki svarthol.

Ef þið kynnið ykkur málið örlítið, þá getið þið séð að það verður til miklu meiri orka í geimnum (við ýmsar stjörnusprengingar ofl) en mun myndast í LHC. LHC mun einfaldlega ekki verða nógu orkuríkt til þess að mynda svarthol, nema mjög mjög mjög lítil sem munu vara í einhverjar míkrósekúndur.


En ég er samt farinn að kaupa dósamat.

Vil bæta tvennu við. Í fyrsta lagi getið þið lesið um öryggi LHC hér:

http://public.web.cern.ch/public/en/LHC/Safety-en.html


og, þeir gangsetja hraðalinn 11.september, en hann verður ekki keyrður á fullu afli fyrr en 2009. Þannig að þið eigið allavega meira en viku ólifað.

Ég vil nota tækifærið og auglýsa greinina "Minningin um heiminn" sem mun birtast á vefsíðu minni þann 11. september, eftir að jörðin lætur lífið.
Með greininni munu birtast youtube-myndbönd af jörðinni og hennar helstu afrek.

Það væri gaman ef Hnakkus væri í raun jafn duglegur að skrifa og fólkið á Barnalandi.

Er ekki hægt að díla við Saving Iceland um að skella sér til Sviss og stöðva þetta madness? Þá bjarga þau ekki bara Íslandi, heldur öllum heiminum! Svo eru þau hálf atvinnulaus núna, eftir að mótmælasísonið er að verða búið hérna vegna haustlægðanna!

Takk fyrir mig. Frábær færsla með stórkostlegu háði!

Ég hef bara lesið einn þráð á hinu alræmda barnalandspjallborði en ég þori samt að fullyrða að þessi snilld er líklega besta sum up á barnalandi.is sem komið hdfur fram!!

Haha sniðug grein hjá þér :)

Elsku krúttið mitt......hvernig dettur þér til hugar að eyða tíma í þessu svartholi?!
En ekki hætta því.......ógeðslega fyndið

fyrrv.granni

"Ofurhetjumamma" mælti:

"en bara allar að senda hver og ein þá fá þau svo mörg að þeir neiðast til að hætta við því þeir hafa ekki tíma vegna þess að þeir gera ekkert annað en að lesa pósta."Óborganlegt. Ég veit samt ekki hvort ég á að hlæja eða gráta.

Ennfremur skrifar "Bellis" eftirfarandi orð.

"Nú eru bara 6 dagar þangað til. Við munum aldrei aftur upplifa miðvikudag og ekki sjá hvernig BNTM endar:("

Ég er nýr lesandi hér á síðunni þinni Hnakkus og ég verð að hrósa þér fyrir það að vera eina bloggið á landinu sem hefur náð athygli minni. Þetta er hins vegar alfyndnasta færslan þín hingað til þótt sagan um Stein komi stutt á eftir. Ég verði hins vegar að lýsa yfir þeirri skoðun minni (sem ég hef rétt á) að fólk sem les Barnaland spjallborðið yfir höfuð verði heimskara með hverri línunni sem það les. Ef Forrest nokkur Gump myndi skrifa reglulega á Barnaland spjallborðin þá yrði honum líklega tekið sem hinum vitrasta. Haltu áfram með góða síðu Hnakkus, ég ætla að venja komu mína hingað inn daglega framvegis. Þakkir, Örvar.

Ein spurning... af hverju er Einar Bárðarson ekki að skipuleggja heimsendapartý fyrir okkur? :-)

Þá sjaldan sem maður lyftir sér upp þá er þetta besta ástæða allra tíma ... heimsendir

Bwahahahahaha ein fyndnasta bloggfærsla sem ég hef séð í langan tíma!

Úfff... framtíð Íslands er alls ekki björt ef eitthvað er hægt að miða við mæðurnar á barnalandi!

Hraðallinn er farinn í gang. Hér má sjá beina útsendingu frá atburðunum:

http://www.cyriak.co.uk/lhc/lhc-webcams.html

Djöfull getur fólk verið heimskt, auðtrúa og paranoid. Moggabloggararnir eru ekkert skárri en þetta barnalandslið.

Þú ert fottur! ein skemmtilegasta blogggrein sem ég hef lesið um dagana.

Þú ert nú meiri sauðurinn Hnakkus.
Auðvitað er allt svona fikt stóhættulegt. Líttu nú bara á, Gore fann upp internetið sem nú hefur skilað okkur menningarlegu svartholi í formi frambjóðanda frá Akureyri. Enginn veit hvar, hvenær eða yfirhöfuð hvort hægt sé að stöðva það svarthol, jafnvel þó menn séu núna að rakna úr rotinu og stofna félög til að vinna gegn þeim vágesti.

Það kæmi mér ekki á óvart að það sé nú þegar búið að myndast dálítið svarthol í Sviss, og það eigi eftir að stækka og éta okkur öll. Hugsanlega eiga þessi svarthol eftir að mætast á miðju Atlantshafinu. Og hvað gerist þá???
Hefur það verið rannsakað af vísindamönnunum sem þú ert svo hrifinn af? Nei, aldeilis ekki.

Þinn óvinur
Deux

http://hasthelargehadroncolliderdestroyedtheworldyet.com/

Ég held að þetta sé án efa besta bloggfærsla sem ég hef lesið á þessu ári.
Bloggverðlaun Nóbels ættu að vera merkt þér

Vá... ég þarf ekki að gera magaæfingar næstu mánuðina... ég hló svo hrikalega að þessari færslu.

Allar þessar fullyringar, allar þessar slagorðabombur. Þetta er snilldarsamantekt á mikilli mannlegri eymd.

Svo þegar ég hafði þurrkað tárin úr augunum og jafnað mig í magavöðvunum þá tók ekki betra við. Öll kommentin frá barnalandsliðinu gerðu gjörsamlega út af við mig. Ég verð með harðsperrur í magavöðvunum í það minnsta þar til meintur dauðdagi fer fram.

Ég las einu sinni einn þráð á Barnalandi og ég varð svo fjúkandi vondur að ég lofaði sjálfum mér að fara aldrei aftur þangað og hef staðið við það. Fínt að fá svona svo maður þurfi ekki að þvælast þangað.

Lesa þetta reglulega síðan þetta var upphaflega sett á netið. Ég þrái meiri Hnakkus!

Skrifa ummæli

Linkur á færslu

Búa til tengil